Tónlistar- og ráðstefnuhöllin Harpa tapaði 243,3 milljónum króna á heildarstarfsemi samstæðunnar árið 2017 samanborið við 606,3 milljóna króna tap árið 2016. Batnaði afkoma samstæðunnar því um 363 milljónir króna á milli ára, en inn í því kemur reyndar að framlag ríkis og Reykjavíkurborgar hækkaði um 259 milljónir króna á árinu.

Þetta er á sama tíma og aldrei fleiri hafa sótt í húsið, eða 2,3 milljónir og viðburðum fjölgaði um fimmtung á árinu. Rekstrarniðurstaða Hörpu fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var jákvæð um 56,6 milljónir króna árið 2017, og er það í fyrsta sinn frá opnun hússins sem það gerist.

Eins og áður segir kemur inn í þá tölu 450 milljóna króna framlag ríkis og borgar, sem hækkaði frá 191 milljón árið áður.
Árið 2016 var tapið af rekstrinum 232 milljónir króna og batnaði því EBITDA Hörpu um tæpar 289 milljónir króna árið 2017.

Rekstrartekjur og - gjöld minnkuðu

Heildartekjur samstæðunnar sem rekur tónlistar og ráðstefnuhöllina Hörpu á síðasta ári voru með framlagi ríkis og borgar, rúmir 1.6 milljarðar króna. Það er aukning frá tæplega 1.5 milljarði króna árið 2016. Rekstrargjöld samstæðunnar voru rúmlega 1,5 milljarður, en þær lækkuðu um 150 milljónir króna á milli ára.

Rekstrartekjur voru 1.161 milljónir króna, en þær lækkuðu einnig, eða 9% og munar þar mestu um þrjá mjög stóra alþjóðlega viðburði árið 2016 auk umfangsmeiri eigin viðburða það ár segir í fréttatilkynningu.

Hálfur milljarður í laun

Laun og launatengd gjöld námu samtals 515 milljónum og stóðu nánast í stað á milli ára. 117 starfsmenn voru á launaskrá sem var óbreytt frá fyrra ári. Stöðugildum fækkaði um tvö og voru 50 talsins.

Annar rekstrarkostnaður tengdur húsnæði dróst saman og fór úr 316 milljónir í 288 milljónir króna. Aðkeypt þjónusta lækkaði um 113 milljónir króna á móti 151 milljón króna hækkun á árunum á undan.

Annar rekstrarkostnaður lækkaði einnig á milli ára sem nemur 47 milljónir króna og var 224 milljónir.
Afskriftir ársins nema 345 milljónum króna.

Skuldir yfir 20 milljarðar

Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 47,5 milljónir króna í árslok 2017. Skuldir samstæðunnar stóðu í rúmum 20,2 milljörðum króna í árslok. Þar af eru tæpir 19,5 milljarðar vegna langtímaskulda/skuldabréfs í tengslum við fjármögnun byggingar Hörpu.
Handbært fé í árslok var 682 milljónir króna. Til samanburðar hækkaði það á milli ára úr 159 milljónum króna árið 2016.

Samkvæmt ársskýrslu 2017, voru haldnir 1.542 viðburðir í Hörpu á árinu samanborið við 1.284 viðburði á árinu 2016 og fjölgaði þeim því um rúm 20%. Af þeim voru 1.052 listviðburðir, þ.e. tónleikar, leiksýningar og listsýningar. Einnig voru haldnar 469 ráðstefnur, fundir og veislur.

Alls voru haldnir 450 viðburðir og leiðsagnir fyrir ferðamenn. Ríflega 286.000 aðgöngumiðar voru afgreiddir í gegnum miðasölu Hörpu á síðasta ári  m.v. 259.000 árið áður sem er um 10% aukning, en auk þess voru fjölmargir aðrir viðburðir í Hörpu án miðasölu. Velta miðasölu í Hörpu var tæpir 1,5 milljarðar króna.

Fjöldi heimsókna í Hörpu á liðnu ári var rúmlega 2,3 milljónir samanborið við tæplega 2 milljónir árið 2016. Aukningu má rekja til vaxtar í viðburðahaldi milli ára auk þess sem meiri fjöldi ferðamanna heimsækir Hörpu en nokkru sinni fyrr.

Aðalheiður ný í stjórn í stað Birnu Hafstein

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Hörpu en hana skipa Þórður Sverrisson formaður, Vilhjálmur Egilsson, Arna Schram, Árni Geir Pálsson og Aðalheiður Magnúsdóttir sem kemur ný inn í stað Birnu Hafstein. Nýr forstjóri, Svanhildur Konráðsdóttir, tók til starfa þann 1. maí 2017 en Halldór Guðmundsson, sem verið hafði forstjóri félagsins frá 2012 lét af störfum 1. mars 2017.

„Þrátt fyrir verulegar áskoranir sjáum við skýrar vísbendingar um að hagræðingaraðgerðir og umbætur í rekstri, sem við settum af stað um mitt ár séu farnar að skila árangri, ekki síst á síðasta ársfjórðungi 2017,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

„En fyrir heilbrigðari rekstrargrundvöll Hörpu til framtíðar þarf horfast í augu við gríðarlega þunga kostnaðarþætti sem snerta fasteignina, s.s. há fasteignagjöld og viðhald á þessari dýrmætu byggingu sem tekjur af útleigu og menningarstarfi geta aldrei mætt að fullu. Þetta viðfangsefni er í vinnslu í góðu samráði við eigendur“