Fransk-hollenska flugfélagið Air France-KLM tapaði 1,19 milljörðum evra á síðasta ári. Þetta jafngildir 200 milljörðum íslenskra króna. Tapið nam 805 milljörðum evra í hittifyrra.. Fram kemur á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal að mikill olíukostnaður og endurskipulagning á rekstrinum hafi sett strik í reikninginn. Olíukostnaðurinn nam 890 milljónum evra og endurskipulagningin kostaði fyrirtækið 471 milljón. Innan Air France-KLM er í gangi aðgerðaráætlunin Transform 2015 en stefnt er að því að á því ári verði búið að lækka skuldir og skera niður kostnað og koma rekstrinum á réttan kjöl.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að flugfarþegum hafi fjölgað um 2,1% á milli ára og sætanýting batnað um 0,6%. Hún stendur nú í 83,1%.

Haft er eftir Phillipe Calavia, fjármálastjóra Air France-KLM, að hann sé vongóður um að fyrirtækið skili hagnaði á næsta ári þrátt fyrir erfiðleika í evrópsku efnahagslífi.