Fyrirtækið sem rekur samskiptamiðilinn Twitter skilaði tapi upp á 133,8 mlljónir dala, jafnvirði rétt rúmra 16 milljarða íslenskra króna, á fyrstu níu mánuðum ársins, það er frá fyrsta ársfjórðungi og til loka þriðja ársfjórðungs. Þetta er 89% meira tap en fyrir ári þegar það nam 70,7 milljónum dala. Tekjur námu 422,2 milljónum dala á fjórðungnum sem er 106% aukning frá fyrra ári. Fram kemur í uppgjöri Twitter að 70% tekna Twitter komu frá snjallsíma- og spjaldtölvuhluta fyrirtækisins. Á sama tíma í fyrra var hlutfall tekna þaðan um 65%.

Það er breska dagblaðið Financial Times sem fjallar um afkomu Twitter í aðdraganda skráningar fyrirtækisins á hlutabréfamarkað en gert er ráð fyrir því að selja hlutabréf fyrir um einn milljarð dala, jafnvirði rúmra 120 milljarða króna, í hlutafjárútboði. Bréf fyrirtækisins verða skráð í kauphöllina í New York, NYSE, en ekki Nasdaq eins og vonir stóðu til. Financial Times segir ennfremur að vegur NYSE hafi vaxið mikið upp á síðkastið gagnvart Nasdaq og hafi fleiri fyrirtækið leitað þangað í kjölfar klúðurslegrar skráningar Facebook á Nasdaq-markaðinn í fyrra.