Útgáfufélag Fréttatímans tapaði 151 milljón króna í fyrra, sem er meira en tífalt tap miðað við árið 2015, þegar það nam 13,5 milljónum króna.

Þetta kemur fram í rekstrarreikningi Morgundags ehf., útgáfufélags blaðsins að því er segir í Fréttablaðinu í dag, en um tíu starfsmenn blaðsins hafa enn ekki fengið greidd laun fyrir marsmánuð.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um undirbýr einn aðaleigandi og ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, nú stofnun Sósíalistaflokks Íslands.

Útgáfudögum fjölgaði með nýjum eigendum

Auglýsingatekjur fjölmiðilsins jukust milli áranna 2015 og 2016 úr 383 milljónum króna í 504 milljónir meðan útgáfukostnaðurinn jókst úr 231 milljón í 369 milljónir.

Á þessu tímabili fjölguðu útgáfudagar blaðsins, fyrst úr einum í tvo og síðan í þrjá á viku með tilkomu nýrra eigenda sem komu að blaðinu í nóvember 2015.

Nýju eigendurnir voru þeir Gunnar Smári Egilsson, fráfarandi ritstjóri, Valdimar Birgisson, auglýsingastjóri og Sigurður Gísli Pálmason, fjárfestir sem er einn eigenda IKEA á Íslandi.

Enginn í stjórn félagsins eftir úrsögn

Á þessum tíma jókst launa- og starfsmannakostnaður blaðsins um 99,7 milljónir króna og var hann í árslok 2016 um 223 milljónir króna. Rekstrartapið fyrir fjármunatekjur og gjöld nam 137,6 milljónum.

Í gær sögðu Gunnar og Sigurður Gísli sig úr stjórn útgáfufélagsins og er nú enginn skráður í stjórn þess