Rekstrarafkoma sænska fjármálafyrirtækisins Skandia á fyrstu sex mánuðum ársins var neikvæð um 1,047 milljónir sænskra króna (8,76 milljarðar íslenskar krónur), miðað við 1,29 milljón króna hagnað á sama tíma bili í fyrra. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Landsbankinn segir slæma afkomu félagsins á tímabilinu megi að mestu rekja til áhrifa af innleiðingu alþjóðlegra reikningskilastaðla (IFRS), en miklar afskriftir voru vegna nýju reglnanna. Afskriftirnar verða einungis gjaldfærðar einu sinni og ætti því ekki að koma til sambærilegs taps í bráð.

Þrátt fyrir tapið jukust tekjur félagsins um 15% á tímabilinu og námu 7,83 milljörðum sænskra króna. Kostnaður jókst um tæplega þriðjung, en ef afskriftir vegna nýju reikningskilastaðlanna hefðu ekki komið til hefði kostnaður aukist um 12%.

Gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað um 29% frá áramótum. Hagnaður á hlut nam neikvæður um 1,03 sænskar krónur á hlut vegna tapsins, en var 1,26 sænskar krónur á sama tíma í fyrra.