Sýn tapaði 60 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og hefur félagið því tapað 410 milljónum króna það sem af er ári. Félagið tapaði 1.748 milljónum árið 2019 en hagnaðist um 455 milljónir á fyrri hluta árs 2019. Félagið birti rétt í þessu árshlutauppgjör.

Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 1.364 milljónum á fyrri hluta ársins sem er 12% hækkun miðað við sama tímabil fyrra árs. Afskriftir félagsins námu 1.300 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi. Seldar vörur og þjónusta jukust um 7% á öðrum ársfjórðungi frá sama tíma fyrra árs og nam 5.352 milljónum. Kostnaðarverð jókst sömuleiðis um 13%.

Tekjuhækkunin er sögð vera vegna kaupa á Endor. Seinkun er á einstökum verkefnum Endor sökum veirufaraldursins. COVID-19 hafði einnig áhrif á reikitekjur félagsins sem dregist hafa verulega saman frá fyrra ári, möguleg áhrif þess á framlegð ársins er um 200 milljónir króna. Samdráttur á auglýsingatekjum má einnig rekja til faraldursins en þær tóku við sér á seinni hluta fjórðungsins.

Sjá einnig: Sýn kaupir Endor

Samdráttur er hjá öllum helstu tekjustraumum félagsins; fjölmiðlun, interneti, farsíma og fastlínu á milli ára, bæði á öðrum ársfjórðungi og á fyrri hluta ársins. Stærsti hluti tekna hjá Sýn kemur frá fjölmiðlun eða 1.848 milljónir króna en þær drógust saman um 15% á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Töluverð aukning er á handbæru fé frá rekstri en það nam 1.753 milljónum á fyrri hluta ársins samanborið við 1.219 milljónir á sama tímabili árið 2019. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 857 milljónir sem skýrist hvað helst af fjárfestingu í sýningarrétti. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 855 milljónir.

Eignir félagsins hafa dregist lítillega saman á árinu og námu í lok annars ársfjórðungs 31.300 milljónum króna. Mest hlutfallslækkun er á handbæru fé eða um 35% sem nemur 410 milljónum króna í lok annars ársfjórðungs. Stærsti hluti eigna félagsins er viðskiptavild, alls 8.832 milljónir en aðrar óefnislegar eignir nema ríflega 4.500 milljónum.

Skuldir félagsins hafa einnig dregist lítillega saman það sem af er ári og nema þær 22.923 milljónum króna. Hins vegar hafa skammtímaskuldir félagsins aukist á árinu, úr 6.631 milljónum í ríflega 8.000 milljónir.

Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 26,8% í lok annars ársfjórðungs en hlutfallið var 27,5% í upphafi árs. Eigið fé félagsins nemur samtals 8.385 milljónum króna. Þar af er 2.796 milljónir óráðstafað eigið fé.

Heiðar Guðjónsson segir í fréttatilkynningu:

„Fyrri árshelmingur sýnir batnandi rekstur. Handbært fé frá rekstri eykst umtalsvert og frjálst sjóðstreymi batnar stórlega. Reksturinn hefði verið arðsamur ef COVID-19 hefði ekki komið til en bæði auglýsinga- og reikitekjur minnkuðu umtalsvert á tímanum auk þess sem tekjur komu ekki inn að fullu af tveimur stærstu efnisréttunum, EM í fótbolta og Meistaradeildinni, líkt og ráð hafði verið fyrir gert.

Við erum enn að hagræða og sjáum tækifæri til að nýta betur fjármagnið með samnýtingu fjárfestinga. Í því augnamiði er verið að færa meiri rekstur og fjárfestingar inn í Sendafélagið, sem er rekið með Nova. Samþykki eftirlitsaðila liggur þegar fyrir hvað þetta varðar.

Aðgerðirnar munu bæta arðsemi rekstrar farsímakerfisins. Það er svo til athugunar að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, sem myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa. Alþjóðlegir aðilar hafa mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja og margfaldarar í viðskiptum eru mun hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði.“