Tap var á rekstri flugfélagsins Virgin Atlantic á síðasta ári. Félagið tapaði alls 80 milljónum punda á árstímabilinu sem lauk í febrúar síðastliðnum. Á sama tímabili ári fyrr hagnaðist félagið um 18,5 milljónir.

Virgin var stofnað af hinum víðfræga Richard Branson og er nú í eigu hans og Singapore Airlines, sem eiga 49% hlut í félaginu. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu jókst eldsneytiskostnaður um þriðjung á tímabilinu og er það sögð ástæða taprekstrarins.

Tekjur félagsins jukust um 3% á tímabilinu og voru 2,74 milljarðar punda. Farþegafjöldinn jókst um 2% á sama tímabili og voru farþegarnir samtals 5,4 milljónir.

Á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir framkvæmdastjóra flugfélagsins að það sé nær óframkvæmanlegt að framkalla hagnað þrátt fyrir aukna sölu þar sem rekstrarumhverfi flugfélaga sé sérstaklega erfitt.