EBITDA hagnaður eins stærsta sjávarútvegsfyrirtækisins í Noregi, Havfisk, nam 93 milljónum norskra króna á fjórða fjórðungi síðasta árs. Það er aukning um 48 milljónir frá árinu á undan. Tekjur á fjórða fjórðungi voru 260 milljónir króna sem er 95 milljónum króna meira en á sama fjórðungi árið á undan.

EBITDA á öllu árinu í fyrra var 211 milljónir króna og velta nam 779 milljónum króna. Aftur á móti varð tap á rekstri fyrirtækisins en það skýrist með dómi í máli Glitnis banka gegn fyrirtækinu.

„Við erum mjög ánægð með niðurstöður fjórða fjórðungs. EBITDA og veiðitekjur eru verulega hærri en á sama tíma í fyrra. Við höfum veitt gríðarlega mikið á fjórða fjórðungi og verðið að þorski, ýsu og ufsa er mun betra í ár en í fyrra,“ segir Olav Holst-Dyrnes, forstjóri fyrirtækisins.

Þrátt fyrir að rekstur Havfisk á síðasta ári hafi verið góður er nemur tap félagsins 75 milljónum norskra króna, eða 1,4 milljörðum íslenkskra króna. Það útskýrist af dómi í máli Glitnis gegn Havfisk. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Havfisk til að greiða Glitni þrjá milljarða króna.

Málið snýst um skiptasamning sem gerður var árið 2005. Slitastjórnin sendi Aker Seafoods, sem nú heitir Havfisk, kröfu árið 2010 upp á nærri 2 milljarða íslenskra króna auk vaxta vegna samningsins. Fyrirtækið taldi að samningnum hafi verið löglega rift árið 2008 og því bæri ekki að greiða kröfuna. Dómur féllst ekki á þann málatilbúnað. Havfisk hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar Íslands.