Indverski bílaframleiðandinn Tata Motors á nú í vandræðum vegna fjárfestinga sinna í bresku Jaguar og Land Rover bílaverksmiðjunum í fyrra samhliða kaupum á breska stálframleiðandanum Corus. Féllu hlutabréf í Tata vegna þessa um 4,28% á mánudag samkvæmt frétt The Times Of India.

Kaupin á Jaguar og Land Rover í fyrra kostuðu 1,15 milljarða punda og stálframleiðandinn Corus var keyptur á 6,7 milljarða punda. Voru þetta talin stærstu og metnaðarfyllstu kaup Tata iðnaðarrisans á sínum ferli, en fyrirtækin voru einmitt keypt á hátindi uppsveiflunnar. Það eru þó einmitt bílaframleiðsla og stálframleiðsla sem hafa orðið hvað harðast úti í kreppunni og er það farið að bíta illilega í fjárhag Tata.

Tata Motors fjármagnaði kaupin á Jaguar og Landrover með 3 milljarða dollara láni í fyrra sem einnig var notað til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Fyrirtækið hefur þegar endurgreitt 1 milljarð dollara, en verður að endurfjármagna 2 milljarða dollara brúarlán sem eftir er nú í júní. Unnið er að skuldbreytingum hjá erlendum lánveitendum upp á 1,5 milljarða dollara en þeir 500 milljarðar dollara sem upp á vantar verða væntanlega fjármagnaðir með sölu hlutabréfa í hinum ýmsu fyrirtækjum samsteypunnar og með nýjum lánum frá ýmsum bönkum.

Jaguar Land Rover samsteypan hefur farið fram á skuldatryggingu hjá breskum yfirvöldum svo hún geti fengið 450 milljóna punda lán hjá breskum bönkum. Þá hefur verið sóst eftir 340 milljóna punda aðstoð í nafni grænnar þróunar frá evrópska fjárfestingabankanum. Það er þó einnig háð skilyrði um tryggingu frá breskum yfirvöldum. Þau hafa hins vegar ítrekað sagt að þau veiti ekki tryggingu nema fyrir 175 milljónum punda.