*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 23. júní 2019 19:01

Tauganet til að greina hlutabréfaverð

Axel Kristinsson notaði tauganet til þess að kanna hvort hann gæti spáð fyrir um þróun verðs á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Sveinn Ólafur Melsted
Axel Kristinsson varði meistaraverkefni sitt á dögunum.
Eva Björk Ægisdóttir

Nú nýlega varði Axel Kristinsson meistaraverkefni sitt í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið fjallar um notkun tauganeta á íslenskum hlutabréfamarkaði. Í rannsókn sinni notaði Axel svokallað MLP tauganet til þess að kanna hvort hann gæti spáð fyrir um þróun verðs á íslenskum hlutabréfamarkaði, með því að nota einungis söguleg gögn.

„Margir hafa reynt þetta erlendis með misgóðum árangri. Íslenski markaðurinn er hins vegar þannig úr garði gerður að hann er talsvert minni en markaðirnir erlendis og það eru færri breytur sem hafa áhrif á verðið. Markmiðið var að kanna hvort tenging gæti verið milli velgengni tauganetanna á prófunartímabili og merkjafræðilegra eiginleika hlutabréfaverðs, svo sem aflrófsþéttleika og sjálffylgni. Í rannsókninni studdist ég við tvö mismunandi tauganet. Annars vegar einfalt MLP tauganet sem flokkaði útkomur hlutabréfaverðs í tvo flokka; hækkun og lækkun hlutabréfaverðs, og hins vegar notaðist ég við sérstakan hugbúnað við þróun flóknara MLP tauganets sem flokkaði útkomur hlutabréfaverðs í þrjá flokka; hækkun, óbreytt og lækkun hlutabréfaverðs. Það var sérstaklega rannsakað hvort það hefði áhrif hversu marga daga aftur í tímann tauganetin horfðu við þjálfun. Við mat á velgengni tauganetanna var notast við þrjár aðferðir; skekkju, nákvæmni og ávöxtun fjárfestingastefna sem hannaðar voru fyrir tauganetin á prófunartímabili," segir Axel.

Gekk best að spá fyrir Icelandair og HB Granda

Að sögn Axels benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að nákvæmni og skekkja séu ekki áreiðanlegar mælieiningar miðað við þær forsendur sem unnið var út frá við öflun og úrvinnslu gagna.

„Sé miðað við ávöxtun fjárfestingarstefna sem þróaðar voru fyrir tauganetin er útkoman almennt betri en fyrir hefðbundnar fjárfestingarstefnur, sér í lagi á tímabili niðursveiflu á markaði sem prófunartímabilið var hluti af. Fyrir ákveðin hlutabréf, sér í lagi Icelandair sem hafði einna hæsta ávöxtun, má bersýnilega greina ákveðna reglu í sjálffylgni og aflrófsþéttleika. Fjárfestingarstefnan var þó gerð með allskonar fyrirvörum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Tauganetin stóðu sig því í raun betur en þegar sýslað var með bréfin á handahófskenndan hátt."

Axel segir að niðurstöðurnar geti þó verið tvíræðar. „Ég komst að því í miðju ferlinu að ég væri ekki að nota æskilega tegund af tauganeti. Það má í raun líkja þessu við að ég hafi verið að reyna að negla nagla með borvél í stað hamars. Ég hefði átt að gera margt öðruvísi en ég gerði, til þess að tauganetið tæki ákveðnari ákvarðanir um hvort verðið myndi hækka eða lækka. Eins og áður segir þá notaðist ég eingöngu við söguleg gögn. Ég tók fyrir tveggja og hálfs árs tímabil, frá byrjun árs 2016 fram á mitt ár 2018. Ég lét tauganetið læra af þeim gögnum og tók svo fyrir seinni helming ársins 2018 og lét tauganetið spá fyrir verðþróun á hlutabréfamarkaði. Tauganetið gaf mér svo ákveðnar líkur á því hvort hlutabréfaverðið myndi lækka, hækka eða haldast óbreytt, eftir því hvort tauganetið var notast við. Á erlendum mörkuðum eru svo ótrúlega margir þættir sem hafa áhrif á markaðinn og því skilar það litlu að greina merkjafræði á þeim. En á íslenska markaðnum gildir annað og í rannsókninni gekk best að spá fyrir um verðbreytingar bréfa Icelandair og HB Granda. Sjálffylgnifall hlutabréfaverðs þeirra á þessu tímabili lítur út eins og sínusbylgja, sem er að endurtaka sig á 20 til 25 viðskiptadaga fresti. Það er áhugaverð niðurstaða og hægt að spyrja sig hvort það sé hægt að nota það eitthvað frekar."

Axel telur að niðurstöður verkefnisins veki upp ýmsa möguleika fyrir frekari rannsóknar- og þróunarvinnu við notkun tauganeta til spákaupa á íslenskum hlutabréfamarkaði, ekki síst vegna fyrrnefndrar sérstöðu sem hann hefur.

„Ég var eiginlega bara að þreifa fyrir mér og datt inn á ákveðna möguleika. Fyrst það er hægt að sjá einhverja reglu úr þróun hlutabréfaverðs á Íslandi með því að nota tauganet, þá tel ég að það sé einungis tímaspursmál þar til einhver fer að nýta sér það."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér