Jóhann Viðar Ívarsson, hlutabréfagreinandi hjá IFS Greiningu, telur að hlutabréfamarkaðurinn sé óþarflega taugaveiklaður yfir áhrifum Costco á Haga. Gengi hlutabréfa í félaginu hefur lækkað um yfir 35% frá opnun Costco þann 23. maí síðastliðinn.

„Ég hallast að því að markaðurinn sé óþarflega taugaveiklaður yfir áhrifum Costco á Haga. Hagar eru mjög fjársterkt fyrirtæki og arðbært í atvinnugrein sem alla jafna er stöðugri en flestar aðrar greinar. Félagið hefur sterkustu stöðu innlendra aðila á dagvörumarkaði og kerfi verslana um allt land. Þar að auki finnst mér það ekki jafn borðleggjandi og margir hafa talað um að það sé nettó sparnaður í því að versla fyrst og fremst við Costco. Það er mismunandi eftir vörum. Svo er dýrt að kaupa svo stórar pakkningar að maður bindi fé í vörunni lengi eða þannig að hluti hennar nýtist ekki.“

Þess má geta að Capacent vörpuðu fram svipuðum pælingum í síðasta verðmati sínu á Högum. Þeir telja félagið vanmetið á markaði og meta hlut í félaginu á 48,6 kr., en við lokun markaða síðastliðinn föstudag stóð gengi bréfa í Högum í 35,5 kr. á hlut.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .