Verslun útlendinga hér á landi sem nýta sér endurgreiðslu virðisaukaskatts jókst um 270% í nóvember frá sama tíma í fyrra og hún hefur fimmfaldast fyrri hluta desember. Þetta kemur fram í gögnum frá Samtökum verslunar og þjónustu.

Á árinu 2007 var slegið met í öllum mánuðum varðandi “tax free”- verslun útlendinga. Aukningin á þessu ári er því þeim mun merkilegri en ella. Í ágúst í ár, sem er stærsti sölumánuður á vörum til erlendra ferðamann, jókst verslun útlendinga um 70%, í september síðastliðnum varð aukningin 95%, í október 120% og í nóvember 270% eins og fram er komið.

Meðalsöluupphæð hefur hækkað um 16% á árinu. Mest eru það Norðurlandabúar, Bretar og Bandaríkjamenn sem versla hér. Mikið hefur borið á Færeyingum og Dönum í aðdraganda jólanna og versla þeir þá allt frá húsgögnum upp í venjulega minjagripi, tískuvöru og annan varning, segir í samantekt SVÞ.