Rotch Property Group, fasteignafélag Vincent og Roberts Tchenguiz, tapaði 4,9 milljónum punda, jafnvirði rúmra 980 milljóna króna, á síðasta rekstrarári. Velta félagsins jókst talsvert á milli ára, fór úr 14,6 milljónum punda í 23,9 milljónir punda, jafnvirði 4,8 milljarða króna. Vaxtagreiðslur upp á 16 milljónir punda settu hins vegar strik í reikninginn.

Fram kemur í breska netmiðlinum This is Money, að fasteignafélagið sé lítill hluti af veldi bræðranna. Bent er á að dregist hafi í tæpa fimm mánuði að skila uppgjöri félagsins. Skýringin á drættinum er talin vera barátta bræðranna gegn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar sem gerði húsleit á heimilum og skrifstofum bræðranna í tengslum við viðskipti þeirra við Kaupþing en þeir bræður voru taldir hafa átt óeðlilega greiðan aðgang að lánum hjá bankanum fyrir hrun. Efnahagsbrotadeildin lét á endanum rannsóknina á Vincent Tchenguiz niður falla og krafðist hann í kjölfarið 100 milljóna punda í skaðabætur vegna málsins. Rannsókninni á Tchenguiz er hins vegar haldið áfram.