Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Euro Investments Overseas Inc, sem gerði 317 milljarða króna kröfu í bú Kaupþing, sé í eigu Tchenguiz-fjölskyldunnar.

Robert Tchenguiz sat um tíma í stjórn Existu, stærsta einstaka eiganda Kaupþings fyrir hrun, og var á meðal stærstu lántakenda bankans. Tchenguiz skuldaði Kaupþingi rúmlega 230 milljarða króna um mitt ár 2008.

Fengu leyfi til að stunda bankaviðskipti á Íslandi í mars 2008

Krafa Euro Investments Overseas Inc. er á meðal stærstu einstöku krafna í bú Kaupþings. Félagið, sem er skráð á Tortola-eyju, er í meirihlutaeigu The Tchenguiz Family Trust og fékk úthlutað íslenskri kennitölu hjá fyrirtækjaskrá í mars 2008, um hálfu ári fyrir bankahrun.

Slíkt er nauðsynlegt til að mega stunda bankaviðskipti á Íslandi. Samkvæmt aflandsskrá fyrirtækjaskráar var Euro Investments Overseas Inc. skráð til heimilis í höfuðstöðvum Kaupþings í Borgartúni. Kaupþing var einnig skráður sem umboðsaðili félagsins.