Kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz tilkynnti um síðustu helgi að hann ætlar í skaðabótamál við Kaupþing og endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton. Tchenguiz ætlar að krefjast hundruða milljóna punda í skaðabætur vegna rannsóknar bresku efnahagsbrotadeildarinnar á falli Kaupþings. Þessu greinir RÚV frá.

Breska efnahagsbrotadeildin, SFO tilkynnti fyrir helgi að samkomulag hefði náðst við Tchenguiz um bætur. SFO greiðir Tchenguiz þrjár milljónir punda og sér um allan lögfræðikostnað, en hann er talin nema um 30 milljónum punda.

Í yfirlýsingu sem Tchenguiz sendi frá sér á föstudag kom fram að hann væri ekki hættur að elta uppi þá sem stóðu að rannsókninni. Um helgina varð síðan ljóst að Kaupþing og endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton stóðu að rannsókninni. Endurskoðunarfyrirtækið svaraði Tchenquiz með því að senda yfirlýsingu þar sem það sagðist hafa farið að lögum í einu og öllu og vísuðu því ásökunum hans á bug.

SFO hætti rannsókn sinni á falli Kaupþings í október fyrir tveimur árum og var rannsókn felld niður á hendur Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstjóra Singer Friedlander, og Guðna Aðalsteinssyni, framkvæmdastjóra fjárstýringar Kaupþings í september 2012. Mál þeirra tengdist viðskiptum Tchenguiz-bræðra við Kaupþing.

Rannsóknin snérist um hvort miklum fjármunum hefði verið dælt úr Kaupþingi í Bretlandi nokkrum dögum fyrir bankahrunið 2008. Vincent Tchenguiz fékk 100 milljón punda lán frá Kaupþingi skömmu fyrir fall hans, en bæði hann og bróðir hans Robert hafa alltaf neitað því að hafa gert nokkuð rangt.