Gert er ráð fyrir að breski fasteignajöfurinn Robert Tchenguiz, sem hefur átt í samstarfi við Kaupþing banka, skrifi á næstunni undir tvo samninga um kaup á SFI Group og Heritage Pub Company sem bæði reka fjölda bara í Bretlandi. Fyrirtæki Tchenquiz, R20, keypti nýlega, með aðstoð Kaupþings banka, bjór- og barfyrirtækið Laurel Pub Co fyrir 151 milljónir punda. Gert er ráð fyrir að Laurel muni kaupa SFI en með kaupunum mun fyrirtækið hafa yfir að ráða um 400 börum í Bretlandi, eftir því sem kemur fram í The Times.

Þá er gert ráð fyrir að enn eitt félag Tchenguiz, The Globe Pub Company, muni fjárfesta í Heritage Pub Company en gert er ráð fyrir að kaupverðið hljóði upp á 80 milljónir punda.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.