Fjárfestirinn Vincent Tchenguiz hefur ekki lýst 460 milljarða króna skaðabótakröfu sinni í slitabú Kaupþings, en lokafrestur fyrir kröfuhafa til að lýsa síðbúnum kröfum í búið rann út í síðustu viku. DV greinir frá þessu.

Tchenguiz höfðaði skaðabótamál á hendur Kaupþingi og fimm öðrum aðilum þar sem hann fór fram á skaðabætur vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir þegar efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar rannsakaði lánveitingar Kaupþings til hans og bróður hans, Robert Tchenguiz.

Hefði Tchenguiz lýst kröfunni í búið hefði slitastjórn Kaupþings þurft að leggja til hliðar kröfufjárhæðina sem nemur 2,2 milljörðum punda. Það hefði getað sett áform slitabúsins um að ljúka nauðsamningum fyrir áramót í uppnám.