Breska öldurhúsafyrirtækið Punch Taverns hefur samþykkt að kaupa öldurhúsakeðjuna Spirit Group fyrir 2,68 milljarðar punda, eða um 300 milljarða íslenskra króna, segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London.

Talið var að viðskiptavinur Kaupþings banka, Robert Tchenguiz, væri sigurstranglegastur en Spirit Group tilkynnti í dag að félagið hefði ákveðið að taka tilboði Punch Taverns frekar en tilboði Tchenguiz.

Í frétt breska blaðsins The Times segir að Spirit hafi fallist á að taka tilboði Punch Taverns vegna þess að fyrirtækið hafi unnið hraðar og öruggt var að fjármögnun tilboðsins væri til staðar. Fjárfestingabankarnir Citigroup, Morgan Stanley og Royal Bank of Scotland fjármagna tilboð Punch Taverns.

Talið er að Barclays-bankinn og Kaupþing banki hafi samið um að fjármagna tilboð Tchenguiz.

Punch Taverns mun fjármagna kaupin með sambankaláni að virði 1,25 milljónir punda og félagið mun einnig taka yfir skuldir Spirit Group.

Seljendur félagsins eru fjárfestingasjóðirnir Texas Pacific, Blacstone Group og CVC Capital. Fjárfestingabankinn Merrill Lynch á einnig hlut í félaginu, ásamt stjórnendum Spirit Group.