Tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi (FSCS) áætlar að kostnaður hans vegna Edge-reikninga Kaupþings Singer&Friedlander (KSF), dótturbanka Kaupþings, og annarra innstæðna bankans verði á bilinu 213 til 307 milljarðar króna þegar að eignir verði að fullu búnar að ganga upp í þann kostnað.

Þetta kemur fram í ársskýrslu FSCS sem var birt í lok júlí síðastliðinn. Allar útgreiðslur FSCS vegna falls KFS voru fjármagnaður að fullu með láni frá ríkissjóði Bretlands. Það eru því á endanum breskir skattgreiðendur sem bera skaðann.

Tengist rannsókn SFO náið

FSCS birti fyrsta yfirlit sitt yfir ætlaðan kostnað vegna falls KFS í byrjun desember 2009. Þann 16. desember 2009, viku eftir birtingu yfirlitsins, tilkynnti Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) að hún væri formlega að rannsaka  hvort að Kaupþing hafi flutt háar fjárhæðir úr KSF heim til móðurbankans á Íslands síðustu daganna fyrir fall hans.

SFO grunaði einnig að Kaupþing hafi sett fram vísvitandi rangar, og jafnvel falsaðar upplýsingar, þegar að bankinn var að laða fjárfesta til þess að leggja fé sitt inn á Edge-netreikninga bankans. Starfsmenn SFO höfðu þá verið með möguleg brot Kaupþings í forkönnun frá byrjun september 2009.

Handtökur og húsleitir

Málið tók síðan á sig nýja mynd í gær þegar níu manns voru handteknir og leitað var á tólf stöðum í Reykjavík og London vegna rannsóknar SFO. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að SFO kanni nú sérstaklega útlán Kaupþings til Robert Tchenguiz, stærsta skuldara bankans fyrir bankahrun, og að sú rannsókn sé í beinum tengslum við þá rannsókn sem SFO hóf í desember 2009. Tchenguiz, Vincent bróðir hans og tveir nánir samstarfsmenn þeirra, Sigurður Einarsson og Ármann Þorvaldsson voru á meðal þeirra sem handteknir voru í gær. Þeir hafa allir verið látnir lausir gegn tryggingu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu blaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.