Einkavæðinganefnd fundaði í gær með fjárfestingabankanum Morgan Stanley, sem ráðinn hefur verið til þess að stýra sölunni á Símanum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins hafa danska símafyrirtækið TDC og bandaríski fjárfestingasjóðurinn Providence Equity Partners nú beðið um upplýsingar til þess að gera óbindandi tilboð. Þetta staðfesti formaður einkavæðingarnefndar, Jón Sveinsson, í viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Bæði félögin sýndu áhuga á Símanum þegar stjórnvöld skoðuðu einkvæðingu Símans árið 2001.

Jón sagði að engin óbindandi tilboð hafa borist enn en skilafresturinn rennur út 17. maí.Greiningardeildir bankanna hafa sagt að verðmat þeirra á Símanum sé á bilinu 40-60 milljarðar. Formaður einkavæðingarnefndar sagði að þreifingar hjá sumum tilvonandi kaupendum séu "í áttina" að efri mörkum greiningardeildanna. Hann sagðist þó búast við að nokkurt bil verði á óbindandi tilboðum í fyrstu lotu söluferlisins.

Sérfærðingar í Bretlandi sögðu í samtali við Viðskiptablaðið að þeim þyki líklegra að innlendir aðilar vinni slaginn um Símann vegna þess að þeir telja að erlendir fjárfestar séu ekki tilbúnir að borga jafnhátt verð. "Innlendir fjárfestar eru tilbúnir að borga meira fyrir Símann heldur en erlendir aðilar," sagði bankamaður í London. "Kannski allt að níu sinnum EBITDA."

Hagnaður Símans fyrir afskriftir og fjármangsliði (EBITDA) nam 7,54 milljörðum króna árið 2004 samanborið við 7,38 milljarða árið áður.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.