Te & Kaffi fékk á dögunum vottun frá vottunarstöðinni Túni um framleiðslu á lífrænu kaffi. Þetta er fyrsta lífræna kaffibrennslan hér á landi sem flaggar slíku.

Stefán Ulrich Wernersson, framleiðslustjóri hjá Te & Kaffi, segir í tilkynningu vottunina mikilvæga. Hún staðfesti bæði getu og framleiðslugæði fyrirtækisins. Ennfremur segir hann að vottunin beri vitni um strangan og agaðan verkferil við framleiðsluaðferðir þess.

Þá segir í tilkynningunni að vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafi þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu. Þetta er í fyrsta sinn sem kaffibrennsla hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi.

Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjum árið 2006. Síðan þá hafa yfir 100 fyrirtæki og bændur hlotið vottun til lífrænnar framleiðslu hér á landi. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.