Á ársgrundvelli reyndist 2,2% verðbólga á evrusvæðinu í nýliðnum desember, og er það í takt við væntingar að sögn greiningardeildar KB-Banka. Benda þeir á að verðbólgan hafi lækkað þrjá mánuði í röð, en hún mældist 2,3% í nóvember.

Þrátt fyrir það hefur verðbólgan verið yfir verðbólgumarkiði Seðlabanka Evrópu 11 mánuði í röð, en verðbólgumarkið hans er 2%. Stutt er í næsta vaxtaákvörðunarfund Seðlabanka Evrópu, eða 12. janúar, og ef verðbólguhorfur versna hefur Seðlabankinn gefið í skyn að stýrivextir munu hækka en þeir spáðu 2,1% verðbólgu 2006.

Teikn hafa verið á lofti þess efnis að hagvöxtur á Evrusvæðinu sé að taka við sér, segir í frétt frá greiningardeild KB-Banka. Greina þeir frá að iðnframleiðsla á Evrusvæðinu jókst meira í desember en hún hefur gert undanfarna 16 mánuði og atvinnuleysi í Þýskalandi minnkaði meira á milli mánaða en það hefur gert í 15 ár.