Svo virðist sem að endurkoma áhættusækninnar eigi sér stað á evrópskum skuldabréfamörkuðum. Fjárfestar sem hafa forðast áhættusöm skuldabréf allt frá því að lausafjárþurrðarinnar tók að gæta í fyrra virðast reiðubúnir á ný að fjármagna útgáfu skuldar fyrirtækja sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á lausafjárkreppunni.

Fram kemur í umfjöllun Euroweek í dag að undanfarið hafi fyrirtækjum með lélegt lánshæfismat tekist að selja skuldabréf sín til fjárfesta. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir mánuði síðan.

Til að mynda tókst breska bankanum Alliance & Leicester að selja skuldabréf að andvirði 350 milljónir punda á dögunum, en eftirspurnin í útboðinu var þreföld sú upphæð.

Euroweek segir að umframeftirspurnin sé til marks um það að fjárfestar sýni nú meiri áhættusækni en áður en undanfarin misseri hafa þeir haldið sig við fjárfestingar í skuldabréfum rótgróinna flaggskipa og ekki komið nálægt fyrirtækjum sem hafa slakt lánshæfismat. Enda þurfa þau að borga háa vexti í sögulegu samhengi af skuldabréfunum.

Þess má geta að Alliance & Leicester er einn þeirra banka sem þrengt hefur verið að á fjármálamörkuðum frá því að lausafjárkreppan hófst.

Jafnframt er það talið til marks um aukna bjartsýni á mörkuðunum að breska félagið Man Group, sem rekur vogunarsjóði, hyggst ráðast í skuldabréfaútgáfu í dag. Fyrir nokkru réðst sambærilegt írskt félag í slíkt útboð en það endaði með því að það gat ekki borgað af skuldabréfinu.

Euroweek hefur eftir ónefndum bankamönnum í London að fjármálamarkaðirnir í Evrópu hafi af einhverju leyti opnast á ný. Mikið af eftirspurninni stýrist af því að fjárfestar hafa safnað upp miklu fé að undanförnu og þeir séu í auknum mæli reiðubúnir til þess að veita því á ný út á markaðinn.

Þeir eru hinsvegar ekki reiðubúnir til þess að fullyrða um að botninum sé náð. Einn bankamannanna bendir á að stemmningin geti breyst fljótt og álagið á skuldabréfin hækkað á ný.

Í umfjöllun Euroweek er það sérstaklega nefnt að fjármálamarkaðir virðast hafa opnast fyrir evrópska banka sem hafa ekki hæstu lánshæfiseinkunn. Er það nefnt að fjárfestar hafi á undanförnu fjárfest í skuldabréfum banka á borð við Compagnie Financiere de Credit Mutuel og Swedbank, en þeir hafa báðir lánshæfiseinkunnina AA.

En þrátt fyrir að eitthvað sé farið að liðka til eru ekki allir sem hætta sér út á skuldabréfamarkaðinn. Euroweek bendir til að mynda á að norska tryggingafélagið Storebrand hafi í vikunni ákveðið að framlengja brúarlánið sem var tekið vegna kaupanna á SPP í stað þess að sækja fé á skuldabréfamarkaði.