Formaður dómnefndar í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit, Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, hefur tilkynnt um niðurstöðu dómnefndar í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu á Alþingisreit.

Í fyrsta sæti varð tillaga frá Arkitektar Studio Granda, tillöguna má sjá í skýrslu dómnefndar ásamt öðrum tillögum sem bárust. Í öðru sæti var tillaga frá T.ark arkitektar og í þriðja sæti tillaga frá  PKdM arkitektar.

Sýning á öllum tillögum sem nefndinni bárust verður opin á 1. hæð Landssímahúss (gengið inn frá Austurvelli) kl. 14–17 sunnudaginn 18. desember og á virkum dögum kl. 16–18 fram að áramótum.

Athygli vekur að hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra um að nýta klassískar teikningar Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins virðist ekki hafa verið ein þeirra sem tekin var afstaða til í störfum nefndarinnar.

Hér fer nefndarálitið:

„Viðfangsefni þessarar samkeppni er í senn afar margþætt og vandasamt úrlausnar. Dómnefnd er sammála um að innsendar tillögur hafi verið frumlegar og fjölbreyttar í því að skilgreina mismunandi kosti til úrlausnar þessa flókna verkefnis.

Aðdáunarvert er að margar djarfar hugmyndir birtast í tillögunum þótt þær hafi ekki allar komið til álita til verðlauna eða innkaupa.

Þessi ríkulega hugmyndavinna tillöguhöfunda gerði störf dómnefndar markvissari en ella og auðveldaði val milli mismunandi lausna.

Í hönnunarsamkeppni þar sem taka þarf tillit til sögulegs samhengis jafnframt því að leysa kröfur um sveigjanleika og flókin innbyrðis tengsl innan og milli bygginga verður vart til þess ætlast að ein tillaga leysi fullkomlega öll þau úrlausnarefni sem fram koma í keppnislýsingu og áhersluatriðum dómnefndar.

Því var það gleðiefni að margar tillögur leystu á áhugaverðan og ólíkan hátt mörg mikilvægustu álitamál keppninnar. Sú tillaga sem dómnefnd er einhuga um að velja til 1. verðlauna felur í sér sannfærandi og listræna heildarlausn á þeim húsnæðis- og skipulagsmálum Alþingis sem aðkallandi er að hrinda í framkvæmd.

Jafnframt sýnir hún fram á dýrmæta möguleika til framtíðarþróunar á húsakosti þingsins. Höfundar leitast við að tengja nýbygginguna við sögu Alþingis og þróun byggðar í Kvosinni allt frá landnámsöld.

Minjar um upphaf byggðar og minni úr seinni tíma byggingarsögu Reykjavíkur eru dregin fram og mynda samþætta heild með nýrri byggingarlist sem ber samtíð sinni vitni af hógværð og tillitssemi við nánasta umhverfi.

Höfundar leggja áherslu á að styrkja og fegra þau borgarrými sem fyrir eru við jaðra reitsins fremur en að skapa ný inn á miðju hans.

Tengsl samtíðar við atburði fyrri alda eru viðfangsefni myndlistarverks við aðalinngang og þau endurspeglast jafnframt í hugmynd um lagskipta steinklæðingu á ytra borði aðalbyggingar. Innra skipulag allra hæða er vel leyst og öll vinnurými njóta dagsbirtu og beinnar útloftunar í annars samþjappaðri byggingu.

Hringgangur innan hverrar hæðar umhverfis ljósgeil í miðju býður upp á margbreytileg sjóntengsl og sveigjanleika í nýtingu. Í heild er tillagan verðugur merkisberi framsækinnar og vandaðrar byggingarlistar fyrir Alþingi á 21. öldinni á líkan hátt og Alþingishúsið við Austurvöll var tákn nýrra tíma í listhugsun og verkmenningu á 19. öld.

Við mat dómnefndar á innsendum tillögum kom í ljós að fermetratala sú sem tilgreind var í rýmistöflu keppnislýsingar undir liðnum Önnur rými var að öllum líkindum vanáætluð.
Aftur á móti var staðfest, við endurútreikning á stærðum verðlaunaðra tillagna, að nettóstærðir þeirra voru innan eðlilegra stærðarmarka húsrýmisáætlunar. Dómnefnd ákvað að horfa frekar til nettóstærða en brúttóstærða við mat á einstökum tillögum.

Dómnefnd þakkar keppendum fyrir þátttökuna og lofsvert framlag.“