Teitur Björn Einarsson gefur kost á sér í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi prófkjöri. Teitur er 32 ára lögmaður. Hann ólst upp á Flateyri og býr og starfar í Reykjavík. Foreldrar hans eru Sigrún Gerða Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur, og Einar Oddur Kristjánsson heitinn, alþingismaður. Hann lauk laganámi frá Háskóla Íslands. Hann var formaður Orator, félags laganema, og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og fyrir Stúdentaráð. Að námi loknu starfaði Teitur hjá LOGOS lögmannsstofu. Árin 2007-2011 var Teitur í forsvari fyrir fiskvinnslufyrirtækið Eyrarodda hf. á Flateyri og hóf svo störf hjá OPUS lögmönnum þar sem hann starfar nú. Teitur gegnir formennsku í utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir í tilkynningu:

„Næstu alþingiskosningar eru þýðingarmiklar. Það er hægt að ná árangri við stjórn landsmálanna en til þess þarf að taka réttar ákvarðanir. Frjálslynt samfélag, virðing fyrir frelsi allra einstaklinga og festa í grunnskipan þjóðfélagsins - þessi gildi eru forsenda þess að okkur auðnist að nýta tækifærin sem við höfum til að efla atvinnulífið og þar með auka velferð. Ég vil leggja mitt af mörkum til að búa í haginn fyrir betra samfélag öllum til heilla og ég fylgi Sjálfstæðisflokknum að málum í þeirri vegferð. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og leita eftir stuðningi í 5. sæti."