Tekist var á um forgangsröðun þingmála á Alþingi fyrir stundu en þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu í upphafi þingfundar í dag, að stjórnarskrárfrumvarpið svokallaða væri sett í forgang þingsins en málefni sem vörðuðu vanda heimila og fyrirtækja væru sett aftar á listann.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sögðu brýnni mál bíða en stjórnarskrármálið. Þannig taldi Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins upp þrenn mál sem hægt væri að afgreiða áður; frumvarp um atvinnuleysistryggingar, frumvarp iðnaðarráðherra um álverið í Helguvík og auknar heimildir saksóknara í kjölfar bankahrunsins.

Fram kom í umræðum að Sjálfstæðismenn styddu flest þeirra og því töldu þeir að þau myndu fara fljótt í gengum þingið. Þeir hafa hins vegar sett sig upp á móti stjórnarskrárfrumvarpinu og því líklegt að nokkrar umræður muni skapast um það mál áður en önnur mál komast að.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins og Frjálslyndra, lögðu hins vegar áherslu á að rætt yrði um stjórnskipunarfrumvarpið í dag. Í rökstuðningi sínum bentu þeir meðal annars á að í frumvarpinu væru tillögur um miklar umbætur í stjórnskipunarmálum og atvinnumálum, m.a.  þjóðareign á auðlindum Íslands.