Ný stjórn verður kosin í Opnum kerfum Group þann 7. september og tilnefnir nýr kjölfestufjárfestir, Kögun, þrjá menn í stjórn og verður nýr stjórnarformaður skipaður ef þeir fá þrjá menn kjörna. Frosti Bergsson, starfandi stjórnarformaður segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að hann ætli einnig að tilnefna þrjá menn í stjórn en hann á sjálfur 14% hlut en á bakvið hann standa einnig Íslandsbanki með 9% hlut og nokkrir aðrir smærri hluthafar. Ólíklegt þykir að lífeyrissjóðir skipti sér að stjórnarkjöri en þeir eiga nokkrir tæplega 4% hlut. Frosti segir að hann ásamt Íslandsbanka hafi viljað tilnefna tvo menn í stjórn og að Kögun myndi tilnefna tvo og svo yrði fimmti stjórnarmaðurinn oddamaður og fulltrúi lífeyrissjóða og smærri hluthafa, en Kögun hefði ekki fallist á það.

Frosti segir mikilvægt að sátt ríki um rekstur félagsins. "Mikill tími hefur farið í uppbyggingu varðandi útrás félagsins og það eru vonir um að hún fari að skila sér og því tel ég mjög þýðingarmikið að sátt ríki um rekstur félagsins," segir Frosti.

Kögun á 36% hlut í félaginu og því vill félagið eðlilega ráða för. "Okkar skoðun er sú að það eigi að ráða framkvæmdastjóra að félaginu," segir Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar í Viðskiptablaðinu í dag. Hann segir að leitað verði að framkvæmdastjóra innan Opinna kerfa Group en ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hver eigi að verða næsti stjórnarformaður.