Ef þú vilt eiga í viðskiptum í Bandaríkjunum myndi ég byrja á að ráða mér góðan lögmann,“ segir Gunnar Birgisson, stofnandi og forstjóri Reykjavík Creamery í viðtali við The Philadelphia Inquirer . „Og líklega fleiri en einn,“ bætir hann við.

Í viðtalinu lýsir Gunnar raunum sínum í rekstri Reykjavík Creamery en gengið hefur á ýmsu frá stofnun fyrirtækisins í Cumberland-sýslu í Pennsylvaníu árið 2018. Reykjavík Creamery framleiðir skyr og aðrar mjólkurvörur og selur til þriðja aðila og er í eigu Gunnars og nokkurra íslenskra fjárfesta.

Samstarfsaðilar dæmdir fyrir Ponzi-svindl

Fyrirtækið samdi við mjólkurbúið Trickling Springs um framleiðslu á skyri í húsnæði Trickling Springs árið 2018. Stuttu síðar, snemma árs 2019, kom í ljós að stjórnendur Trickling Springs voru undir rannsókn lögreglu varðandi aðild að Ponzi-svindli sem beint var að amish-fólki og öðrum mennónítum samkvæmt umfjöllun The Philadelphia Inquirer. Gunnar segir að sér hafi blöskrað þegar hann komst að því og með aðstoð íslenskra fjárfesta keypti hann Trickling Springs út úr rekstrium og flutti í nýtt húsnæði. Framkvæmdastjóri mjólkurbúsins, Philip Riel, var að endingu dæmdur í 10 ára fangelsi á síðasta ári og hefur Trickling Springs verið lýst gjaldþrota og er hætt starfsemi.

Sjá einnig: Styrkja íslenska mjólkurgerð vestanhafs

Meðal stærstu hluthafa Reykjavík Creamery eru P126 ehf. í eigu Einars Sveinssonar fjárfestis, Snæból ehf. í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reys Stefánssonar. Í viðtalinu segir Gunnar um sex milljónum dala hafa verið fjárfest í félaginu eða um 780 milljónum króna að núvirði.

Neitað um atvinnuleyfi

Nú bíður Gunnars hins vegar nýtt vandamál að leysa úr, en umsókn hans um atvinnuleyfi í Bandaríkjunum, sem taldi alls 310 blaðsiður, var hafnað nýlega. Gunnar, getur ekki unnið í daglegum rekstri félagsins án þess að eiga í hættu á að vera vísað úr landi. Jane W. Goldblum, lögmaður Gunnars, segir hann geta neyðst til að selja frá sér reksturinn ef honum tekst ekki að fá atvinnuleyfi. Þriggja milljón dollara viðbótarfjárfestingu hafi þegar verið frestað vegna málsins.