„Tilgangurinn var að minnka snjóhengjuna og það hefur tekist að minnka hana töluvert í gegnum þessi útboð,“ segir Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, í samtali við Viðskiptamoggann um fjárfestingarleið Seðlabankans sem nú er lokið.

Nú er síðasta gjaldeyrisútboðinu fyrir fjárfestingarleiðina lokið í Seðlabankanum en þau hafa verið liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Alls hefur verið haldið 21 útboð þar sem Seðlabankinn hefur keypt evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum. Á sama tíma hefur Seðlabankinn svo óskað eftir tilboðum frá þeim sem vilja krónur gegn greiðslu í öðrum gjaldeyri.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir í samtali við Viðskiptamoggann að með gjaldeyrisútboðunum hafi tekist að færa kvikar krónueignir að fjárhæð 175 milljarða úr eigu erlendra aðila í hendur langtímafjárfesta. Hann segir að staða kvikra krónueigna hafi lækkað úr 26% í árslok 2011 í 15% sem hlutfall af landsframleiðslu.

Regína segir að viðskiptavinir velti því núna fyrir sér hvaða leiðir verði farnar nú þegar fjárfestingarleiðinni er lokið. „Við þurfum að vita fljótlega hver næstu skref í afleysingu haftanna eiga að vera, hvort um verður að ræða önnur útboð eða aðrar aðferðir notaðar.“