Mikið hefur gengið á á Alþingi að undanförnu. Þingfundir standa langt fram undir morgun og þingmenn kvarta yfir svefnleysi. Í öllu orkupakkafárinu hefur þó annað veigamikið mál farið heldur hljótt: sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Í lok mars voru lögð fram tvö frumvörp í tengslum við sameininguna. Eitt umdeildasta atriði þeirrar útfærslu sem lagt er upp með er að eftirlit með viðskiptaháttum á fjármálamarkaði sé fært inn í Seðlabankann ásamt þjóðhagsvarúðareftirlitinu – sem breið samstaða er um að sé betur sett innan bankans, enda var tilfærsla þess helsta ástæða sameiningarinnar.

Sá umsagnaraðili sem tók hvað sterkast til orða í þessum efnum var Kauphöllin, sem lagðist alfarið gegn slíkri sameiningu, og sagði hana geta leitt til hagsmunaárekstra og takmarkaðrar valddreifingar. Lagt var til að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits – einn af þremur varabankastjórum samkvæmt frumvarpinu – heyrði beint undir bankaráð Seðlabankans í málefnum fjármálaeftirlits. Þá var lagt til að verkefni Lánamála ríkisins yrðu færð úr Seðlabankanum.

Gjörólík hlutverk
Skýrslan sem varð kveikjan að breytingunum – skrifuð af þriggja manna starfshóp sem Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, veitti formennsku – lagði að sama skapi aðeins til að þjóðhagsvarúðareftirlit yrði fært inn í Seðlabankann. Viðskiptaháttaeftirlit yrði áfram á hendi sérstakrar stofnunar, enda framkvæmd peningastefnu og eftirlit með fjármálamörkuðum gjörólík hlutverk.

„Við hefðum viljað að Fjármálaeftirlitið yrði áfram til staðar sem sjálfstæður aðili til að sinna eftirlitshlutverkinu. Við töldum að það væri ekkert sérstaklega heppilegt fyrir seðlabanka yfirhöfuð að fara að blanda sér í slíkt,“ segir Ásgeir, eins og nýleg dæmi hafi sannað, og vísar þar til Samherjamálsins.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið farið eftir tillögum starfshópsins í einu og öllu telur Ásgeir þó breytingarnar heilt yfir vera til hins betra. Mikil framför sé sem dæmi fólgin í þeirri breytingu að Seðlabankinn sé viðurkenndur sem ábyrgðaraðili á fjármálastöðugleika, og fjölgun seðlabankastjóra sé jákvæð. „Það er mjög jákvætt að breytingarnar séu byggðar að einhverju leyti á skýrslu starfshópsins, þótt útfærslan sé kannski ekki alveg eins og við hefðum viljað hafa hana.“

Samlegðaráhrif og skýrara stjórnskipulag
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ráðherranefnd sem fjallaði um málið hafa skoðað alla möguleika vandlega. Niðurstaðan hafi verið að stjórnskipulagið væri skýrara með allsherjarsameiningu; samlegðaráhrif sameiningarinnar myndu tapast ef yfirstjórn yfir viðskiptaháttaeftirliti væri ekki hjá sama aðila og yfirstjórn yfir peningastefnu.

„Við skoðuðum að sjálfsögðu hina leiðina, okkar mat var bara hreinlega að í okkar litla 350 þúsund manna landi værum við ekki að ná fram þeirri samlegð,og bestu nýtingu á hæfileikum þess starfsfólks sem sinnir þessum málum, með því að aðskilja fjármálaeftirlitið með þessum hætti.

Þegar við setjumst fyrst yfir þetta verkefni þá er það tillaga frá Ásgeirsnefndinni að sameina bara varúðareftirlitið, en ekki viðskiptaháttaeftirlitið. Við skoðuðum þá leið og niðurstaða okkar var sú að ef við færum að kljúfa þetta upp þá myndum við sitja eftir með veikara viðskiptaháttaeftirlit.

Þess vegna leggjum við til, og við teljum að við gerum það með fullnægjandi hætti, að þetta sé aðgreint: að það séu þessir þrír varaseðlabankastjórar og þrjár nefndir sem fari með þessi ólíku málefni.“ Málefnin þrjú, sem til stendur að hin nýja sameinaða stofnun skiptist í, eru peningastefna, fjármálastöðugleiki og fjármálaeftirlit.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .