Kjalar hf., félag Ólafs Ólafssonar, tekst nú á um það við þrotabú Kaupþings á hvaða gengi á að gera upp gjaldmiðlaskiptasamning Kjalars við Kaupþing frá því fyrir hrun. Samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur er málið á dagskrá 26. september nk.

Upphæðirnar sem um ræðir eru háar, eða sem nemur um 650 milljónum evra, 108 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi.

Kjalar telur sig eiga umtalsverða fjármuni inni og vill miða við opinbert gengi Seðlabanka Evrópu á uppgjörsdegi, í október 2008, en það telur slitastjórn Kaupþings ekki vera rétt og vill miða við gengi Seðlabanka Íslands.