Flokkarnir í framboði hafa talsvert ólíka sín á lagningu vegtolla og framtíðarfyrirkomulag á úthlutun aflaheimilda í sjávarútvegi og hve há auðlindagjöldin eigi að vera.

Allir flokkar tala um að auðlindagjald eigi að endurspegla afkomu greinarinnar á hverjum tíma, en deilt er um leiðir.

Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn vilja að hluti afla verði boðinn upp á markaði. Viðreisn bendir á að með þessum hætti fáist sanngjarnt gjald sem ráðist af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.

Þá telja Björt framtíð, Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar töluvert svigrúm vera hjá útgerðinni til þess að greiða hærri auðlindagjöld.

Framsókn, Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkurinn tala einnig fyrir endurskoðun núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þannig að það endurspegli betur afkomu greinarinnar án þess að tala fyrir uppboðsleið eða auknum álögum sérstaklega.

Björt framtíð nefnir endurskoðun reiknilíkana þannig að greiðslur taki mið af stöðu útgerðarinnar á hverjum tíma en ekki tveggja ára gömlum upplýsingum. Sjálfstæðismenn segjast hins vegar vera mótfallnir verulega auknum álögum á greinina miðað við það sem nú sé. Vinstri græn tala hins vegar fyrir að hluti af hækkun auðlindagjalda renni til sveitarfélaga og Píratar og Miðflokkurinn vilja tryggja að auðlindagjöld leggist ekki of þungt á minni fyrirtæki í greininni.

Veggjöld til að flýta fyrir uppbyggingu vegakerfisins

Sjálfstæðisflokkurinn og Flokkur fólksins segjast fylgjandi því að nýta vegatolla og telja að álagning vegatolla myndi flýta til muna fyrir ýmsum samgöngubótum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur hins vegar áherslu á að aðrar ökuleiðir án gjaldtöku standi til boða og Flokkur fólksins vill að stórnotendur slíkra vega greiði fyrir þá lágt gjald. Þá segjast Viðreisn og Björt framtíð vera opin fyrir því að skoða gjaldtöku. Viðreisn leggi engu síður áherslu á að hefðbundnar fjármögnunarleiðir verði fyrst nýttar.

Þar benda bæði Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn á að búast megi við að hefðbundnar fjármögnunarleiðir vegakerfisins í gegnum gjald á eldsneyti muni í framtíðinni dragast saman og því sé ljóst að finna þurfi aðrar fjármögnunarleiðir. Aðrir flokkar tala ýmist fyrir áframhaldandi fjármögnun vegakerfisins úr ríkissjóði eða hafa ekki tekið afstöðu til málsins.

Nánar er fjallað um stefnumál flokkanna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .