Slitastjórn Glitnis deilir um uppgjör á framvirkum samnningum um kaup á hlutabréfum við Straumborg, félag Jóns Helga Guðmundssonar í Byko. Straumborg keypti í desember árið 2007 hlutabréf í Kaupþingi fyrir 6,4 milljarða króna. Félög tengd Jóni Helga var á sama tíma á meðal helstu lántakenda hjá Kaupþingi. Ekki mun um endurgreiðslukröfu að ræða af hálfu slitastjórnar Glitnis. Tekist er á um málið í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þá hefst aðalmeðferð þess.

Straumborg er stór hlekkur í veldi Jóns Helga. Félagið er í eigu hans og fjölskyldu hans og átti auk hlutabréfa í Kaupþingi hlut í lettneska bankanum Norvik ásamt því að fjárfesta í olíu- og orkuiðnaði. Þá á Straumborg 22% hlut í Norvik. Félagið skuldaði 30 milljarða króna í lok árs 2008. Eigið féð var þá jákvætt. Staðan breyttist hins vegar ári síðar en verðmæti eigna í olíu- og orkugeiranum og bankanum í Lettlandi hafa lækkað verulega í verði. Ársreikningurinn frá árinu 2008 er hins vegar sá nýjasti sem liggur fyrir.

Straumborg fékk heimild til að leita nauðasamninga í mars og átti að greiða atkvæði um nauðasamningsfrumvarpið í þessum mánuði. Fram kom í Viðskiptablaðinu 14. mars síðastliðinn að flestar eignir félagsins hafi verið seldar eða búið að semja um sölu þeirra.

Á meðal lánardrottna Straumborgar eru Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki og þrotabú Glitnis auk erlendra lánastofnana.