Sú bylting sem hefur verið á olíuvinnslu, einkum í Bandaríkjunum með tilkomu ódýrra lausna við vinnslu olíusands, hefur heldur betur hrist upp í valdajafnvægi á olíumarkaði. Sádí Arabar höfðu lengi vel öll spil á hendi sér en eftir að vinnsla á olíu úr olíusandi jókst til muna hafa þeir nauðbeygðir þurft að semja við Rússa og önnur ríki til þess að halda böndum á verðmyndun á olíu. Hafa samningarnir orðið til þess að Pútín, forseti Rússlands, er sagður af mörgum hafa tekið við taumunum í OPEC líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Hingað til hefur bandalag keppinautanna OPEC og Rússlands virkað en heimsbirgðir olíu hafa helmingast og olíuverð er hefur hækkað töluvert og nálgast nú hæsta verð síðustu tveggja ára. Nú í vikunni muni fulltrúar OPEC landanna og Rússlands hittast í Vín til þess að ræða áframhaldandi skorður á framleiðslu. Þau eiga hins vegar mjög erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig olíuframleiðendur í Bandaríkjunum munu bregðast við ákvörðunum þeirra árið 2018.

„Framleiðslutakmarkanirnar skila árangri – það var hárrétt ákvörðun og samningurinn við Rússa var afar mikilvægur,“ hefur Bloomberg eftir Paolo Scaroni , varaformanni stjórnar NM Rothschild & Sons og fyrrum forstjóra ítalska olíurisans Eni SpA. „OPEC hefur ekki sama vald og áður. Það er stór breyting þegar Bandaríkin verða stærsti olíuframleiðandi í heimi,“ segir hann.

Að ná yfirhöndinni í samkeppninni um stjórn á olíumarkaðinum hefur mikla þýðingu fyrir OPEC ríkin en völd þeirra hafa sýnilega minnkað frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Samningarnir við Rússland og áhrif þeirra á olíuverð þykja sýna að OPEC hafi enn töluverða vöðva sem hægt sé að hnykla.

Jafnframt virðist vera að hægja sé á vexti bandarískrar olíuframleiðslu en fjárfestar eru farnir að gera kröfu um að hagnaði verði skilað til þeirra í stað þess að honum sé endurfjárfest til þess að auka framleiðslugetu. Lítill samhljómur er meðal greinanda um hver olíuframleiðsla verður úr olíusandi á næsta ári en spár hafa verið allt frá 500,000 tunnum og upp í 1,7 milljón tunna á dag.

Vandamál fyrirkomulagsins er hins vegar það að þegar OPEC hnyklar þá vöðva sem eftir eru, nær verðinu upp og dregur úr framleiðslu, verður það einfaldlega til þess að rekstrarstaða framleiðenda í Bandaríkjunum batnar og þeir auka framleiðslu.

Bandalag OPEC og Rússa mun því þurfa að glíma við að eftir því sem betur tekst að stjórna verðmyndun á olíumarkaði, því sterkari verða olíuframleiðendur í Bandaríkjunum. Og það gæti þýtt að innan tíðar verði gömlu keppinautarnir, OPEC og Rússar, aftur farnir að berjast um viðskiptavinina.

Bloomberg hefur eftir Ed Morse, forstöðumanni hrávörudeildar Citigroup að átökin milli OPEC og fyrrverandi stærsta viðskiptavinar þeirra, Bandaríkjanna, á olíumarkaði hljóti, til lengri tíma litið að geta aðeins endað á einn hátt.

„Það er að það verði afskaplega mikið af olíusanda-olíu í heiminum.“