Kvikmyndin Héraðið verður frumsýnd þann 14. ágúst næstkomandi. Myndin fjallar um Ingu, kúabónda sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum, og auk hennar er því hið skáldaða Kaupfélag Erpsfirðinga í aðalhlutverki.

Haft hefur verið á því orð að hinu ímyndaða kaupfélagi svipi heldur mikið til hins mjög svo raunverulega Kaupfélags Skagfirðinga. Grímur Hákonarson, handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, segir það ekki tilviljun. „Ég viðurkenni það alveg að kveikjan að hugmyndinni eru sögur úr Skagafirði um samskipti bænda við kaupfélagið og svona árekstra. Fólk sem sér myndina á alveg eftir að sjá einhverja tengingu, enda er KS eina öfluga kaupfélagið sem er eftir.“

Inga er byggð á nokkrum konum sem Grímur þekkir úr sveitinni. „Baráttukonum sem hafa risið upp í þessu íhaldssama bændasamfélagi,“ þar sem við lýði hafi verið heldur fastmótaðri kynjahlutverk heldur en víðast hvar annarsstaðar.

Skotin á léttari nótunum
Grímur ítrekar þó að þrátt fyrir skírskotanir til Kaupfélags Skagfirðinga og að myndin sé að einhverju leyti byggð á sönnum sögum um það, sé hún þegar allt kemur til alls skáldskapur. „Þetta er ekki heimildarmynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Það er svolítið verið að skjóta á það, en það er mestmegnis á léttum nótum.“

Annað sem hann segir nauðsynlegt að hafa í huga er að þar sem kaupfélagið sé í andstöðu við söguhetjuna, Ingu, sé það óhjákvæmilega í hlutverki „vonda kallsins“, söguþráðarins vegna. Að því sögðu sé framsetningin langt frá því að vera svart-hvít. „Kaupfélagsstjórinn fær alveg að koma með sitt sjónarmið, þetta er ekki einhliða mynd. Margir áhorfendur verða jafnvel meira sammála honum en Ingu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Mikið tap á verktakafyrirtækis á tímum eins mesta uppgangs í byggingariðnaði landsins
  • Allt að fimmtungslækkun verðs á hótelherbergum í sumar vegna aukinnar samkeppni um ferðamenn
  • Úttekt um uppgjör og horfur í rekstri Icelandair, og áhrif þess á hlutabréfaverð félagsins
  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra er í ítarlegu viðtali
  • Óvæntur liðsauki bættist í hóp reynslumikilla ráðgjafa sem þátttakendur tónlistarhraðalsins fá aðgang að
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka sem lent hefur í kröppum dansi við hákarla
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um stólaleik menntamálaráðherra