Á 2. ársfjórðungi nam tekjuafgangur hins opinbera 9,7 milljörðum króna sem er nokkuð óhagstæðari afkoma en á 2. ársfjórðungi 2006 er hann mældist 15,7 milljarðar króna. Þetta kemur fram í Hagtíðindum. Sem hlutfall af landsframleiðslu var tekjuafgangurinn 0,7% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 6,5%.

Nokkuð snörp lækkun virðist vera frá síðasta ársfjórðungi 2006 er tekjuafgangur hins opinbera mældist 2,2% af landsframleiðslu, en á fyrsta ársfjórðungi 2007 nam hann 1,6% af landsframleiðslu.

Tekjuafkoma ríkissjóðs og almannatrygginga var jákvæð um ríflega 8,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2007 og tekjuafkoma sveitarfélaganna um 1,4 milljarðar króna á sama tímabili. Tekjuafkoma sveitarfélaganna hefur batnað verulega frá árinu 2004 er hún var neikvæð um 5,8 milljarðar króna á árinu sem heild, en á árinu 2005 var hún jákvæð um 4,4 milljarðar króna og á árinu 2006 um 11 milljarðar króna.