Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 70,7 milljarða króna árið 2007, eða 5,5% af landsframleiðslu og 11,3% af tekjum.

Til samanburðar var tekju-afkoman jákvæð um 6,3% af landsframleiðslu 2006 og 4,9% árið 2005.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands en út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2007.

„Þessi hagstæða tekjuafkoma stafar fyrst og fremst af miklum tekjuafgangi ríkissjóðs, sem nam 4,0% af landsframleiðslu árið 2007 og 5,3% árið 2006,“ segir á vef Hagstofu.

Fjárhagur sveitarfélaganna hefur einnig verið jákvæður síðustu þrjú árin, enda þótt hann sé afar misjafn. Árið 2007 nam tekjuafgangur þeirra 8 milljörðum króna, eða 0,6% af landsframleiðslu, og árið 2006 um 4 milljörðum króna, eða 0,3% af landsframleiðslu.

Tekjur hækka minna en útgjöld

Þá kemur fram að tekjur hins opinbera mældust um 624 milljarðar króna 2007 og hækkuðu um rúmlega 63 milljarða króna milli ára.

Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær 48,2% og hafa ekki í annan tíma verið hærri, en samsvarandi hlutfall var 48,0% árið 2006. Tekjur hins opinbera hafa hækkað mjög frá árinu 2002 er þær mældust 41,7% af landsframleiðslu.

Útgjöld hins opinbera námu 553 milljörðum króna 2007 og hækkuðu um 66,5 milljarða króna milli ára, eða úr 41,7% af landsframleiðslu 2006 í 42,8% árið 2007.

Mest varið til heilbrigðismála

Heildarútgjöld til heilbrigðismála námu 119 milljörðum króna 2007, eða 9,2% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 98,2 milljarðar króna en hlutur heimila 20,8 milljarðar, eða 17,5% af útgjöldunum.

Til fræðslumála var ráðstafað 106,4 milljörðum króna 2007, eða 8,2% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 96,3 milljarðar króna og hlutur heimilanna 10,1 milljarður króna, eða 9,5%.

Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 111,4 milljörðum króna 2007, eða 8,6% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 14,4 milljörðum króna.   Heildar peningaleg eign hins opinbera nam 709 milljörðum króna og heildarskuldir ríflega 700 milljörðum króna. Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var jákvæð um 8,6 milljarða króna í árslok 2007, eða um 0,7% af landsframleiðslu.

Tekjuafkoma hins opinbera og að meðtöldum fyrirtækjum þess var jákvæð um 0,9% af landsframleiðslu 2007, en tekjuafkoma opinberra fyrirtækja hins vegar neikvæð um 4,5%, sem skýrist m.a. af mikilli fjárfestingu sem nam um 5,6% af landsframleiðslu. Lökust var tekjuafkoma opinberra aðila 2003 eða neikvæð um 5,2% af landsframleiðslu.