Blaðamannafundur um leiðréttingarleið ríkisstjórnarinnar
Blaðamannafundur um leiðréttingarleið ríkisstjórnarinnar
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Tekjuafkoma hins opinbera, það er ríkissjóðs, sveitarfélaga og almannatrygginga, var neikvæð um 37,1 milljarð króna árið 2013 eða 2,1% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 65 milljarða króna árið 2012 eða 3,8% af landsframleiðslu. Þetta er niðurstaða bráðabirgðauppgjörs hins opinbera fyrir árið 2013, sem greint er frá á vef Hagstofunnar.

Tekjur hins opinbera námu um 789 milljörðum króna og hækkuðu um 6,6% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 44,2% samanborið við 43,6% árið 2012. Útgjöld hins opinbera voru 826 milljarðar króna og jukust um 2,6% milli ára en hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkaði milli ára, fór úr 47,4% í 46,3%.