Tekjuafkoma hins opinbera reyndist neikvæð um 14,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt tölum Hagstofunnar .

Þetta er mun lakari niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar tekjuafkoma var jákvæð um 10,1 milljarð króna. Tekjuhallinn nam 2,9% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða 6,9% af tekjum hins opinbera.

Heildartekjur hins opinbera stóðu í stað milli 1. ársfjórðungs 2014 og 2015. Hins vegar jukust heildarútgjöld hins opinbera um 12,2% á sama tímabili. Sú útgjaldaaukning skýrist aðallega af hærri launa- og vaxtakostnaði og tilfærsluútgjöldum.

Heildarskuldir ríkissjóðs námu 2.009 milljörðum króna í lok 1. ársfjórðungs 2015 sem samsvarar 94,9% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, var neikvæð um 869 milljarða króna í lok ársfjórðungsins, en það samsvarar 41,1% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs jókst um 18,6 milljarða króna milli 1. ársfjórðungs 2014 og 2015.