Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 58,5 milljarða króna árið 2012 eða 3,4% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 91,1 milljarð króna árið 2011 eða 5,6% af landsframleiðslu. Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar, en taka ber fram að um bráðabirgðatölur er að ræða.

Tekjur hins opinbera námu um 735 milljörðum króna og hækkuðu um 55 milljarða króna milli ára eða um 8%. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 43% samanborið við 42% árið 2011. Útgjöld hins opinbera voru 794 milljarðar króna og jukust um 22 milljarða króna milli ára eða 2,9% en hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkaði úr 47% af landsframleiðslu 2011 í 46% 2012.

Tekjuafkoma ríkissjóðs var neikvæð um 60,1 milljarð króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta er betri árangur en náðist árið 2011 þegar hallinn nam 92,6 milljörðum króna. Vaxtakostnaður ríkisins nam um það bil 90 milljörðum króna í fyrra, sem þýðir að frumjöfnuður ríkissjóðs hefur verið jákvæður um um það bil 30 milljarða króna.