Tekjuafkoma ríkissjóðs árið 2007 verður 15,5 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri um 13 milljarðar, segir í fjárlagafrumvarpi.

Áætlað er að lánsfjárjöfnuður verði rúmlega 16 milljarðar og að honum verði varið til að greiða áfram niður skuldir og bæta stöðu ríkissjóðs á annan hátt. Tekjuafkoma ríkissjóðs er mun betri en áætlað var í langtímastefnumörkun ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006.

Í stað þess að ríkissjóður verði með 7,1 milljarða krónu tekjuhalla og gengið verði á stöðuna í Seðlabanka verður myndarlegur afgangur á ríkissjóði og staða ríkissjóðs styrkist. Næst sá árangur þrátt fyrir ófyrirséðan kostnað við brottför varnarliðsins og að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hefjist á næsta ári. Breyting á afkomu ríkissjóðs er um 23 milljarðar króna og má rekja það að hluta til meiri tekna og að hluta til aukins aðhalds í ríkisfjármálum meðal annars frestunar á fyrri framkvæmdaáformum.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs verði lægri í krónutölu á árinu 2007 en á árinu 2006. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 373,4 milljarðar króna sem er lækkun um tæplega 1,7 milljarða frá áætlun þessa árs. Að raunvirði lækka tekjurnar um 4,7% á milli ára einkum vegna þess að gert er ráð fyrir minni hagvexti og að einkaneysla dragist saman á næsta ári.

Lækkun tekna má einnig rekja til áforma um lækkun á tekjuskatti einstaklinga. Áformað er að lækka tekjuskattshlutfall einstaklinga um 1 prósentustig og hækka persónuafslátt. Samtals hækka skattleysismörk um tæplega 14% vegna þessara aðgerða og tekjur ríkisins verða 13 milljörðum krónum lægri en annars hefði orðið. Þannig er áfram skilað til heimilanna hluta af styrkri stöðu ríkisfjármála auk þess að framlög til lífeyris- og velferðarmála verða aukin, segir í frumvarpinu.

Heildargjöld ríkisjóðs á næsta ári verða 357,8 milljarðar króna samkvæmt frumvarpinu. Hækka gjöldin um 31,8 milljarð frá áætlun þessa árs eða um 5% að raungildi. Er það heldur minni raunhækkun á milli ára en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar sem fylgdi fjárlagafrumvarpi 2006. Hækkun útgjalda má einkum rekja til stóraukinna framlaga til velferðarmála auk þess að framlög til samgöngumála aukast mikið.

Útgjöld aukast einnig vegna yfirtöku á verkefnum varnarliðsins meðal annars til eflingar á þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Þá eru framlög til rannsókna- og menntamála aukin í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs. Loks má nefna að útgjöld til þróunaraðstoðar vaxa áfram í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málum. Til að mæta breyttum áherslum og kostnaði sem hlýst af brotthvarfi varnarliðsins er gripið til ýmissa aðgerða á gjaldahlið frumvarpsins, með lækkun útgjalda til reksturs og áformaðra framkvæmda, sem skila sér í að útgjöldin verða tæplega 11 milljörðum lægri en þau hefðu annars orðið, segir í frumvarpinu.