Breytingar hafa orðið á eignarhaldi fraktflutningafélagsins Cargo Express . Wow air átti 60% hlut í félaginu en það er nú breytt. Í ársreikningi fyrir árið 2019 kemur fram að félagið er í 75% eigu Róberts V. Tómassonar framkvæmdastjóra og 25% eigu Guðlaugar Tómasdóttur. Í reikningnum kemur fram að í stjórn sitji Skúli Mogensen og Steingrímur Grétar Sigurðsson.

Cargo Express var umboðsaðili fraktflutninga fyrir Wow air , sem varð gjaldþrota fyrir rúmu ári. Tekjur félagsins hrundu á milli ára en þær fóru úr tæplega 1,8 milljörðum króna árið 2018 í tæplega 460 milljónir í fyrra. Félagið hagnaðist um 205 milljónir árið 2018 en 33 milljónir króna í fyrra. Virði eigna lækkaði úr 360 milljónum í 78 á milli ára og eigið fé fór úr 245 milljónum í 48. Skuldir Cargo Express lækkuðu úr 112 milljónum í 30 milljónir á milli ára. Í yfirliti um sjóðstreymi kemur fram að 230 milljóna arðgreiðsla hafi verið greidd á árinu 2019 samanborið við 210 milljóna arðgreiðslu árið 2018. Ekki kemur fram hvenær arðgreiðslan í fyrra var innt af hendi.

Um mitt ár 2018 keypti WOW air 60% hlut Cargo Express af Títan fjárfestingafélagi, sem er í eigu Skúla, á 2,1 milljarð króna. Þann 6. febrúar í fyrra fékk Wow air 108 milljóna króna arðgreiðslu frá Cargo Express og var upphæðin lögð inn á reikning Títan þennan sama dag en Wow var tekið til gjaldþrotaskipta tæplega tveimur mánuðum síðar. Bera forsvarsmenn Títan því við að arðgreiðslan hafi verið hluti af söluverði Cargo Express . Skiptastjórar þrotabús Wow air eru hins vegar á annarri skoðun og hafa bent á að arðgreiðslan hafi verið á gjalddaga í apríl í fyrra. Var riftunarmál vegna þessara viðskipta þingfest í héraðsdómi 19. febrúar og er málið enn til meðferðar dómstóla.