Bruggsmiðjan Kaldi tapaði tæplega 31 milljón króna fyrir skatta á síðara ári samanborið við 7,7 milljón króna hagnað árið 2019. Um fimmtungs sölufall varð á vörum félagsins á liðnu ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Tapið má að miklu leiti rekja til áhrifa heimsfaraldursins.

Sala félagsins nam tæpum 312 milljónum króna en var ríflega 382 milljónir króna árið á undan. Kostnaðarverð seldra vara nam 164 milljónum tæpum. 9,2 milljóna tap varð af rekstri samanborið við 23,6 milljóna rekstrarhagnað árið 2019.

„Óvenjulegar aðstæður hafa skapast vegna kórónaveirunnar og mikil óvissa er um efnahagsleg áhrif faraldursins vegna óvissu um hve lengi hann mun vara. Faraldurinn hefur haft veruleg áhrif á starfsemi félagsins þar sem viðskiptavinum eins og veitingastöðum og krám hefur verið gert að loka eða takmarka opnunartíma. Félagið hefur aðlagað starfsemi sína eins og hægt er og reinar með minni áhrifum faraldursins þegar líða tekur á árið 2021,“ segir í skýrslu stjórnar.

Félagið fjárfesti í vélum og tækjum á árinu og námu eignir í árslok 414,4 milljónum og hækkuðu um 38 milljónir króna. Þar af nema veltufjármuni 118 milljónum króna, stærstur hluti þess eru 97 milljón króna birgðir. Handbært fé í árslok var tæplega 600 krónur. Óráðstafað eigið fé var rúmlega 74 milljónir króna.

Langtímaskuldir félagsins hækkuðu um fjórðung milli ára, fóru úr 143 milljónum í tæplega 207 milljónir. Skammtímaskuldir námu síðan 96 milljónum króna. Afborganir af langtímalánum félagsins eru 25 milljónir króna þetta ár og næsta en lækkar síðan í tæpar 22 milljónir. Þá hefur bruggsmiðjan gengist í ábyrgð fyrir þriðja aðila til greiðslu á 105 milljón króna skuld.

Í upphafi árs 2019 var fjöldi ársverka tólf en hann dróst saman í tíu á síðasta ári. Laun og laungatengd gjöld lækkuðu um fimmtung, úr 100 milljónum í rúmlega 79 milljónir. Á síðasta ári jók félagið við hlut sinn í Bjórböðunum og á nú tæplega 31% félaginu. Af skýringum við ársreikninginn má ráða að Bjórböðin hafi, eðli málsins samkvæmt enda lítið um samkomur, tapað á annan tug milljóna á liðnu ári.