Næstum helmingur þeirra heimila, sem er með fjölskyldutekjur upp á 1.250 þúsund krónur á mánuði eða meira, er með áskrift að Netflix. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið. Spurt var: ert þú eða einhver á heimilinu með áskrift að Netflix?

Í heildina eru ríflega einn af hverjum fimm Íslendingum með áskrift, eða 21,6%, sem þýðir að um 27 þúsund heimili eru með áskrift að Netflix. Á tekjuhæstu heimilunum (1.250 þúsund eða meira á mánuði) er þetta hlutfall 49%. Um 26 til 27% þeirra sem eru með frá 800 til 1.249 þúsund krónur á mánuði eru með áskrift að Netflix. Hlutfallið snarminnkar eftir þetta. 15% heimila, sem eru með 550 til 799 þúsund á mánuði, eru með áskrift og 8% þeirra sem eru með 400 til 549 þúsund. Hlutfallið hækkar síðan aftur í lægsta tekjuhópnum því 16% fólks, sem er með lægri laun en 400 þúsund á mánuði er með áskrift.

Netflix er augljóslega vinsælla á heimilum höfuðborgarsvæðisins en á landsbyggðinni. Í Reykjavík eru 25% íbúa með áskrift og 26% íbúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Á landsbyggðinni er hlutfallið 15%.

Menntun er breyta sem skiptir líka máli þessu samhengi. Þeir sem eru með háskólapróf eru líklegastir til vera með áskrift en samkvæmt könnunni eru 29% þeirra með áskrift. 23% fólks með framhaldsskólapróf er með áskrift en aðeins 13% fólks með grunnskólapróf.

Fjöldi svarenda í könnuninni var 859 af þeim tóku 98,6% afstöðu. Könnunin var gerð frá 23. september til 5. október.

netflix
netflix


Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .