Tekjuhærri einstaklingar eru mun líklegri til að ferðast bæði innanlands og utan, samkvæmt könnun MMR fyrir Ferðamálastofu. Um 71% þeirra sem eru með 800 þúsund eða meira í heimilistekjur ferðuðust bæði innanlands og utan en einungis um 47% þeirra sem eru með heimilistekjur undir 250 þúsund. 66% þeirra sem eru með 600 til 799 þúsund í heimilistekjur á mánuði ferðuðust bæði innanlands og utan. Tæp 3% þeirra sem höfðu 800 þúsund eða meira í heimilistekjur ferðuðust ekki neitt á árinu 2011 og 6% þeirra sem eru með 600 til 799 þúsund á mánuði. Um 15% þeirra sem höfðu minna en 250 þúsund krónur í heimilstekjur ferðuðust ekkert á síðasta ári.