Jennifer Lawrence var lang tekjuhæsta leikkonan á síðasta ári en eitt nafn á listanum kemur ef til vill svolítið á óvart.
Hin 25 ára gamla bandaríska leikkona, Jennifer Lawrence, þénaði 52 milljónir dollara í fyrra eða tæpa 6,8 milljarða króna. Það er 16,5 milljónum dollara meira en leikkonan sem er í öðru sæti á listanum og ríflega tvöfalt meira en leikkonan í þriðja sæti.

Lawrence er líklega þekktust fyrir hlutverk sitt sem Katniss Everdeen í Hunger Games kvikmyndunum. Hún hlaut Óskarsverðlaun sem besta leikkona aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni Silver Linings Playbook árið 2012, en þar lék hún á móti Bradley Cooper. Árið 2013 hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni American Hustle.

Hér er listinn yfir tekjuhæstu leikkonurnar árið 2015:

1. Jennifer Lawrence þénaði 52 milljónir dollara.

2 . Scarlett Johansson þénaði 35,5 milljónir dollara. Hún fékk mjög ríflega borgað fyrir hlutverk sitt sem Natasha Romanoff (Svarta ekkjan) í myndinni Avengers: Age of Ultron.

3. Leikkonan Melissa McCarty, sem sló eftirminnilega í gegn í myndinni Bridesmaids árið 2011, þénaði 23 milljónir dollara í fyrra. Hún lék aðalhlutverkið í grínmyndinni Spy í fyrra, sem fékk fína dóma.

4. Bingbing Fan þénaði 21 milljón dollara. Eflaust eru margir sem ekki hafa heyrt hana nefnda en þessi 34 ára gamla kínverska leikkona er algjör súper-stjarna í heimalandinu. Í Vesturheimi er hún þekktust fyrir hlutverk sitt í myndinni X-Men: Days of Future Past. Fan er með auglýsingasamning við snyrtivöruframleiðandann L’Oreal.

5. Jennifer Aniston gerði það gott í fyrra og þénaði 16,5 milljónir dollara. Hún lék í myndunum Horrible Bosses 2 og Cake á síðasta ári en hefur líka gert ríflega auglýsingasamninga við fyrirtæki eins og drykkjarvöruframleiðandann SmartWater og snyrtivöruframleiðendurna Aveeno og Living Proof.