Óskar Magnússon, rithöfundur og bóndi á Sámastöðum í fljóshlíð, var tekjuhæsti listamaður landsins í fyrra og námu tekjur hans að jafnaði 6,2 milljónum króna á mánuði, samkvæmt álagningarskrám ríkisskattstjóra. Óskar er fæddur árið 1954 og er lögmaður að mennt frá Háskóla Íslands og George Washington University. Hann var einn af aðaleigendum Morgunblaðsins og starfaði sem útgefandi blaðsins til lok árs 2014. Óskar var forstjóri TM á árinum 2005 og 2007 og forstjóri Hagkaups og stjórnarformaður Baugs hf. á tíunda áratugi síðustu aldar. Hann hefur komið víða við á starfsferlinum og starfað sem lögmaður, blaðamaður og var um tíma fréttastjóri DV.

1. Óskar Magnússon, rithöfundur og bóndi 6.239

2. Haukur Heiðar Hauksson, söngv. Diktu, læknir 2.226

3. Ragnar Jónasson, rithöfundur og lögfr. 1.829

4. Steinþór Hróar Steinþórsson (Steindi Jr.), leikari 1.741

5. Björn Bragi Arnarsson, skemmtikraftur 1.485

6. Baltasar Kormákur Baltarsson, leikstj. 1.480

7.  Pétur Jóhann Sigfússon, leikari 1.405

8. Hilmir Snær Guðnason , leikari 1.355

9. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstj. Sinfóníuhlj. Ísl. 1.346

10. Jakob Frímann Magnússon, tónlistarm.  1.253

Næstu tveir einstaklingartnir á listanum eiga það sameiginlegt með Óskari að gegna öðrum störfum samhliða listinni. Haukur Heiðar Hauksson, söngvari rokkhljómsveitarinnar Diktu, er þannig heimilslæknir að aðalstarfi.  Spennusagnarithöfundurinn Ragnar Jónasson er lögfræðingur að mennt og var til skamms tíma yfirlögfræðingur fjármálafyrirtækisins Gamma.

Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., sem er fjórði á listanum, er góðkunnur grínisti og leikari. Hann er jafnframt efstur þeirra sem hafa helgað listagyðjunni alla sína starfskrafta. Tekjur Steinda Jr. voru að jafnaði um 1,7 milljón á mánuði í fyrra, en hann var annar tekjuhæsti listamaðurinn skv. Frjálsri versluna árið 2017.

Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2018 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .