Gert er ráð fyrir því í nýju fjárlagafrumvarpi að ríkið taki lán upp 118 milljarða króna á næsta ári og greiði litlu minna, 100 milljarða, í afborganir af öðrum lánum. Lánsfjárþörf ríkisins nemur 18 milljörðum króna sem er 23 milljörðum meira en áður var áætlað. Stærstur hluti afborgana er vegna gjalddaga ríkisbréfaflokksins RIKB13 á næsta ári sem er nú 83 milljarðar króna.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu í dag. Þar segir m.a. að í heild megi segja að fjárlagafrumvarpið sé í takti við fyrri áætlanir um rekstur ríkissjóðs á komandi ári og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Gert er ráð fyrir að heildarjöfnuður ríkissjóðs verði neikvæður um 2,8 milljarða króna á rekstrargrunni á næsta ári, en að frumjöfnuður, þegar vaxtagjöld og -tekjur eru undanskilin, verði með 60 milljarða afgangi.

Tekið er fram í Morgunkorninu, að því verði að halda til haga að frumvarpið á eftir að hljóta afgreiðslu á Alþingi í kosningaham, auk þess sem ýmsar af forsendum þess, svo sem um tekjuaukningu vegna aukinna efnahagsumsvifa, tekjur af eignasölu og eiginfjárframlög, virðast æði bjartsýnar. Enn fremur hefur fjármálaráðherra lýst því yfir í fjölmiðlum að ef forsendur reynast hagstæðari seinna í haust verði útgjöldin hækkuð sem því nemur. Því má í raun líta á 2,8 milljarða króna sem algert lágmark á þeim halla sem vænta má á ríkissjóði á næsta ári.

Hér má nálgast umfjöllun Greiningar Íslandsbanka um fjárlagafrumvarpið