Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir janúar til september liggur nú fyrir og gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda. Tekjujöfnuður var jákvæður um tæpa 76 milljarða — samanborið við það að hann var neikvæður um tæpa 3 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Afborganir lána á tímabilinu námu 126,8 milljörðum króna. Alls tók ríkið lán að fjárhæð ríflega 31 milljarða króna samanborið við lán upp á 48 milljarða á sama tímabili í fyrra og 166,9 milljarða á sama tíma árið 2014.

Tekjuskattur

Tekjuskattur einstaklinga jókst um 21,4% milli ára á tímabilinu og var 108,7 milljarðar frá janúar til september.

„Aukningin milli ára endurspeglar miklar almennar launahækkanir og hátt atvinnustig sem jafnframt skýrir jákvætt 10,1% frávik frá fjárlagaáætlun. Fyrir vikið eykst innheimta tekjuskatts verulega milli ára þrátt fyrir lækkun á skatthlutfalli í 1. og 2. þrepi í ársbyrjun,“ segir í greiðsluafkomunni.

Tekjuskattur á lögaðila lækkaði hins vegar um 17,2% milli ára á tímabilinu en hann nam 38,2 milljörðum milli janúar og september 2016 miðað við 42,4 milljarða árið áður.

Tekjur ríkikssjóðs af vörugjöld á ökutækjum aukast um 29% á tímabilinu úr 5,2 milljörðum og upp í 6,7 milljarða það sem af er árinu 2016. Alls jókst skattinheimta á vörur og þjónustu um 12% frá fyrra ári, en á fyrstu 9 mánuðum ársins 2015 voru tekjurnar 170,8 milljarðar en árið 2016 191,3 milljarða. „  Aukningin  milli ára  endurspeglar aukinn  kaupmátt  heimilanna  og  uppgang  á  mörgum sviðum   atvinnulífsins,“ að mati Fjármálaráðuneytisins.

Gjöld

Greidd gjöld námu  506,3 milljörðum kr og jukust um 33,9 milljarða króna frá fyrra ári, eða um 7,2% sem er minna en gert hafði verið ráð fyrir.

Stöðugleikaframlög

„Stöðugleikaframlög frá slitabúum hafa runnið til ríkissjóðs í formi ýmissa eigna á árinu. Bókfærð innheimta  vegna þeirra á tímabilinu janúar til september nam alls 68 ma.kr. Þar af komu 17 ma.kr. til ráðstöfunar hjá ríkissjóði í stað þess bankaskatts sem áður var áætlað að lagður yrði á slitabúin en 51 ma.kr. var í mars og júní notaður til að greiða niður lán frá Seðlabanka Íslands. Hafa ber í huga að hér kemur aðeins fram sá hluti stöðugleikaframlagsins  sem  hefur  verið  ráðstafað  með  framangreindum  hætti, en stærstur  hluti  þess  auk  hliðaráhrifa á aðrar tekjur, er aðgreindur frá hefðbundnu tekjuuppgjöri ríkissjóðs,“ er einnig tekið fram í samantekt Fjármálaráðuneytisins.