Rúmlega tveir af hverjum þremur landsmönnum hlakkar til jólanna á meðan ríflega 3% landsmanna kvíða þeim.

Þetta kemur fram á vef Capacent en kannað var í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup hvaða hug fólk bæri til þess að jólin væru á næsta leyti.

Nær 14% sögðust hinsvegar bæði hlakka til jólanna og kvíða þeim en tæplega 16% hvorki hlakka til jólanna né kvíða þeim.

Þá kemur fram að konur eru spenntari fyrir jólunum en karlar og þeir sem hafa hærri fjölskyldutekjur hlakka líka almennt frekar til jólanna en þeir sem hafa lægri fjölskyldutekjur, á meðan þeir tekjulægri eru líklegri en tekjuhærri til að kvíða þeim.

Þannig segjast rúmlega 12% þeirra sem hafa lægri fjölskyldutekjur en 250 þúsund krónur á mánuði kvíða jólunum á meðan enginn þeirra svarenda sem hefur milljón eða meira á mánuði í fjölskyldutekjur kvíðir jólunum.

Sjá könnunina í heild sinni.